Hlutdrægni og aðrar hliðar málsins

Ég varð gáttaður þegar ég las fréttina inná mbl.is. Nánar tiltekið þótti mér ótrúlegt hversu hlutdræg fréttin er, t.d. í þessari málsgrein:

"Hlutfall tekna sem koma til skerðingar útreiknuðu láni lækkar nú úr 12% í 10%, en samsvarandi hlutfall var 40% fyrir fimm árum. Einfalt og hóflegt tekjutillit hefur þannig leyst af hólmi verulega íþyngjandi og margbrotnar reglur með frítekjumörkum og undanþágum."

Mér þætti gaman að vita hvaða fréttamaður geti látið þetta útúr sér en það er ekki uppgefið á síðunni. Mér þykir fréttin minna óhóflega mikið á fréttatilkynningu miðað við að það sé ekki gefið upp. Ég á þó bágt með að trúa öðru en að það sé reyndin.

Það er gaman að sjá "Fulltrúa ríkisstjórnar og námsmanna í stjórn LÍN" fá klapp á bak sitt fyrir að hafa náð þeim ótrúlega árangri á fáeinum árum að hækka tekjuskerðinguna fyrir verst stöddu námsmennina úr 0% í 10% af launum fyrir skatt. Ennfremur þykir mér ótrúlegt að lesa að skerðingin hafi lækkað úr 40% í 10%. Það hefur hingað til ekki talist góður siður að bera saman epli og appelsínur, en nú eru greinilega breyttir tímar. Tekjuskerðingin hefur ekki lækkað fyrir alla námsmenn heldur hefur kerfinu verið breytt. Þar er af sem áður var þegar námsmenn fengu þó allavega að eiga hluta tekna sinna í friði með hjálp frítekjumarksins og þar að auki er skerðingin nú reiknuð af launum fyrir skatt, en var áður reiknuð af launum eftir skatta. Þetta kemur hluta námsmanna vel, en þeir sem minnstar tekjur hafa verið skildir eftir úti í kuldanum.

Þess er einnig vert að geta að á meðan framfærslugrunnurinn hækkar um 4,9% á milli ára hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,3% á síðustu 12 mánuðum. Því miður get ég ekki séð hér sé um raunhækkun að ræða, þó það sé betra en ekki neitt. Hámarkslánin, fyrir einstakling í leiguhúsnæði, hækka um 7,6%  en þessi munur er ekki skýrður að nokkru móti í fréttinni. Miðað við úthlutunarreglur síðustu ára hækka áætluð laun úr kr. 947.223 fyrir 2006-2007 í kr. 947.543 fyrir 2007-2008, eða um 0,03%. Reyndar er líklegt að notuð hafi verið sömu viðmiðunarlaun og fyrir síðasta ár við útreikning grunnframfærslunnar. Ef tekið er tillit til hækkunar launavísitölu síðustu 12 mánuði, sem er 9,7%, og reiknað með sömu hækkun viðmiðunarlauna lækkar grunnframfærslan hinsvegar í kr. 84.886, eða um 2,9%. Ef breytingar hafa orðið á útreikningi grunnframfærslunnar er það stærri frétt en reiknuð hækkun hennar, sem er háð öðrum þáttum,  án fyrirvara um áætlaða hækkun launavísitölu sem LÍN hefur annars stuðst við síðustu ár. Hækkun launavísitölu hefur mikil áhrif á kjör námsmanna, óháð því hvort þeir hafi tekjur eður ei, þarsem LÍN notast við miðgildi tekna lánsþega frá árinu 2004, framreiknað með hjálp launavísitölu, til að skera úr um hversu mikið vanti uppá fyrir námsmenn til að framfleyta sér yfir árið.


Með öðrum orðum hefur LÍN síðustu ár haldið því fram að námsmenn þurfi kr. 1.619.800, en án tillits til efnahags gerir LÍN svo ráð fyrir að námsmennirnir verði sér sjálfir úti um 58% af fjárhæðinni(miðað við skólaárið 2006-2007, háð hækkun framfærslugrunns og launavísitölu). Þessi fjárhæð er fundin útfrá miðgildi tekna einstaklinga í leiguhúsnæði sem fengu lán hjá LÍN 2004, reiknað útfrá áætlaðri hækkun launavísitölu. Það gefur því að skilja að um helmingur (erfitt að sjá útfrá miðgildi) námsmanna hafa minna milli handanna en LÍN segir þá þurfa. Þetta þykir mér ólíklegt að hafi breyst, þar sem ekkert er minnst á það. Því tek ég þessum tölum um hækkun námslána með miklum fyrirvara.
mbl.is Dregið úr tekjutengingu námslána hjá LÍN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband